Skip to content

Íslenskuverðlaun unga fólksins

Á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, er hefð fyrir því að veita völdum nemendum í öllum grunnskólum Reykjavíkur Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík.  Viðurkenningin er veitt þeim nemendum sem hafa:

  • sýnt færni, frumleika að sköpunargleði við að tjá sig á íslensku í ræðu og/eða riti,
  • sýnt leikni í að nota tungumálið sem samskiptatæki, ýmist í hagnýtu eða listrænu skyni, t.d. á sviði samræðulistar eða ljóðrænnar framsetningar,
  • tekið miklum framförum í íslensku.

 

Laugalækjarskóli mátti tilnefna tvo nemendur til verðlaunanna í ár og fyrir valinu urðu þær Kristjana Rebecca Reardon í 7-U og Sólveig Ásta Aradóttir í 10-A.  Afhending verðlaunanna hefur yfirleitt farið fram í Ráðhúsi Reykjavíkur í viðurvist allskonar fyrirmenna og andfugla undir verndarhendi Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta.  En á tímum samkomutakmarkanna þarf að hafa annan hátt á og því voru verðlaunahafar boðaðir ásamt bekkjarfélögum sínum niður á sal  skólans þar sem þeim voru veitt bókaverðlaun auk viðurkenningarskjals við lágstemmda en hátíðlega athöfn.  Verðlaununum er ætlað að auka áhuga ungs fólks á íslenskri tungu og hvetja þau til þess að nota hana til að tjá sig hvort sem er í rituðu eða töluðu máli.  Óhætt er að fullyrða að þær Kristjana og Sólveig séu vel að verðlaununum komnar.

Kristjana var tilnefnd vegna þess hversu reiðubúin hún er til þess að takast á við ný viðfangsefni og leggja sig fram um að sinna öllum þáttum íslenskunámsins af dugnaði.

Sólveig hlýtur verðlaunin vegna dugnaðar síns og áhuga á íslensku og alhliða vandvirkni.  Þá segir í röksemdum með tilnefningu hennar að það sé  „sérstaklega ánægjulegt að lesa texta frá henni, hvort sem um er að ræða skapandi ritun, rökfærslu eða gagnrýni; hún gerir ávallt miklar kröfur til sín, vandar málfar sitt og beitir fjölbreyttum orðaforða um leið og hún sýnir frumleika og sköpunargleði.“

Við óskum þeim innilega til hamingju!