Foreldraviðtöl - fyrirkomulag

Síðustu skólaár hafa foreldraviðtöl verið haldin fjórum sinnum yfir veturinn, eins og sjá má hér að neðan. Dagsetningar má finna á skóladagatali hvers vetrar. Við hvetjum foreldra þó til að óska oftar eftir viðtölum, meti þeir þörf á því. 

Hefðbundin foreldraviðtöl í lok september. Hver fjölskylda fær sinn viðtalstíma hjá umsjónarkennara. Markmiðið með viðtölum nú er að fara yfir líðan og ástundun nemenda fram að þessu og jafnvel setja niður eigin markmið. Ef önnin hefur ekki byrjað vel verður þetta kærkomið tækifæri til að breyta um stefnu og móta aðgerðir. Athugið að aðrir kennarar en umsjónarkennarar eru einnig til viðtals þennan dag eftir þörfum. 

Opin viðtöl í nóvember. Allir kennarar skólans eru til viðtals og skólinn er opinn frá morgni og til kl. 14 ef frá eru taldir matar og kaffitímar - nánari tímasetningar eru auglýstar sérstaklega hverju sinni.  Námsframvinda (námsárangur) er í brennidepli, en einnig ástundun og líðan. Námsmöppur liggja frammi til skoðunar. Sérstakir viðtalstímar eru ekki bókaðir og stofur kennara standa opnar yfir daginn. Telji foreldrar mikilvægt að fá einnig hefðbundin viðtöl með umsjónarkennara eru þeir hvattir til að leita eftir því einhver annan dag. Foreldraviðtöl eru gjarnan sama dag og í Laugarnesskóla

Hefðbundin foreldraviðtöl í febrúar. Hver fjölskylda fær sinn viðtalstíma hjá umsjónarkennara. Athugið að aðrir kennarar en umsjónarkennarar eru einnig til viðtals þennan dag eftir þörfum. Námsframvinda (námsárangur) er í brennidepli, en einnig ástundun og líðan. Námsmöppur liggja frammi til skoðunar. 

Skólaslit og fjölskyldusamtöl í júní. Nemendur hvers árgangs í 7. - 9. bekk og foreldrar þeirra mæta á sal skólans til formlegra skólaslita á auglýstum tíma. Að því loknu halda þeir í stofur til umsjónarkennara, þar sem hver fjölskylda hefur sitt samtalsborð. Þar liggja námsmöppur nemandans og sérstök áhersla er lögð á sýnismöppu. Kennari afhendir vitnisburð vetrarins sem nemendur og foreldrar skoða í sameiningu. Umsjónarkennari gengur á milli og svarar helstu spurningum. Nemendur 10. bekkjar mæta eingöngu á brautskráningu. 

Prenta | Netfang