Móttaka nemenda án íslenskukunnáttu

Hér er átt við móttöka nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hefja skólagöngu á Íslandi í Laugalækjarskóla.

Innritun

Til þess að innrita sig þar þarf nemandinn að hafa kennitölu sem fæst hjá Þjóðskrá Íslands. Formleg innritun í skólann fer fram í gegnum Rafræna Reykjavík. Upplýsingar og aðstoð við innritun má fá í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í síma 411 1111. 

Þegar nemandi hefur innritast í skólann í gegnum Rafræna Reykjavík er hann boðaður ásamt foreldrum sínum og túlki ef þarf, til kynningarheimsóknar og móttökuviðtals. Við innritun fá foreldrar Upplýsingabækling fyrir foreldra erlendra grunnskólabarna og bækling um Laugalækjarskóla.

Móttökuviðtal og kynningarheimsókn:

Viðtalið sitja skólastjórnandi, umsjónarkennari, íslenskukennari, nemandinn, foreldrar hans og túlkur ef þarf. Viðtalið er fimmskipt:

  1. Skólastjórnandi kynnir sýn skólans, skóladagatal, hvaða dagar eru ekki hefðbundnir skóladagar; skerta daga, starfsdaga, foreldradaga/viðtöl, símanúmer skólans, heimasíðu og netföng skólareglur, mætingaskyldu, mötuneyti og greiðslufyrirkomulag, samstarf heimilis og skóla, útivistarreglur foreldrafélag, félagsmiðstöðin Laugó kynnt - sjá einnig um gjaldfrjáls frístundatilboð á erlendum tungumálum á innri vef borgarinnar
  2. Foreldrar og nemandi veita upplýsingar um bakgrunn nemanda svo sem áhugamál, skólagöngu, einkunnir, færni í lestri, móðurmáli og öðrum tungumálum, færni í öðrum námsgreinum, sterkar og veikar hliðar, greiningar, sundfærni, áföll í lífi nemandans, á fjölskyldan íslenskan eða erlendan stuðningsaðila, atvinnu foreldra og lengd vinnudags. viðhorf til þess að dvelja á Íslandi, áætlaðan dvalartíma, upprunamenningu, klæðnað, hátíðir og siði.
  3. Umsjónarkennari kynnir möppukerfið, náms- og kennsluhætti, námsmat, stundaskrá nemandans, hvar farið er í íþróttir og sund, innkaupalista, valgreinar í 9. og 10 . bekk, (eingöngu ef nemandinn innritast í 9. eða 10. bekk) mentor , hvernig á að tilkynna veikindi og biðja um leyfi, leiðsögufélagana sem verða nemandanum innan handar fyrstu vikurnar í skólanum.
  4. Íslenskukennari kynnir hvernig íslenskunámi nemandans verður háttað og ræðir mikilvægi þess að við viðhalda hæfni og bæta við í eigin móðurmáli.

Eftirfylgni:

  • Í lok móttökuviðtalsins er fyrsti skóladagur ákveðinn og tími fyrir næsta fund sex til átta vikum seinna. Markmið fundarins verður að ræða hvernig aðlögun hefur gengið. Upplifun nemanda, foreldra og skóla. Stoðþjónustan kynnt.
  • Umsjónarkennari sér um að koma nauðsynlegum upplýsingum um nemandann til allra þeirra sem koma að kennslu hans í skólanum.


Kynning á skólahúsnæðinu
Eftir móttökuviðtalið ganga skólastjórnandi, umsjónarkennari og leiðsögufélagar um skólahúsnæðið, svo sem list- og verkgreinastofur, matsal, upplýsinga-og tölvuver, aðstöðu hjúkrunarfræðings námsráðgjafa, ritara, umsjónarmanns skólans, 7. og 8. bekkjahúsið og 9. og 10. bekkjahúsið.

Prenta | Netfang