Móttaka nemenda úr öðrum skólum

Innritun

 • Foreldri sækir um skólavist í Laugalækjarskóla á Rafrænni Reykjavík.
 • Foreldri nemanda óskar eftir viðtali við skólastjórnanda vegna umsóknar um skólavist.
 • Skólastjórnandi samþykkir eða synjar umsókn.
 • Skólastjórnendur ákveða í hvaða bekk nemandinn á að fara og tilkynna það umsjónarkennara.
 • Tími fyrir móttökuviðtal og kynningarheimsókn ákveðinn þar sem foreldrar og nemandi mæta.

Kynningarferð
Nemendur sem innritast fyrir skólabyrjun í ágúst mæta í skólann ásamt forráðamönnum nokkrum dögum fyrir skólasetningu. Ýmis hagnýt atriði kynnt og gengið um skólahúsnæðið svo sem list- og verkgreinastofur, matsal, upplýsinga-og tölvuver, aðstöðu hjúkrunarfræðings námsráðgjafa , ritara og umsjónarmanns skólans. Nemendur sem innritast eftir að skólaár er hafið fá kynningarheimsókn samhliða móttökuviðtali.

Móttökuviðtal
Móttökuviðtalið sitja forráðamenn, nemandi, skólastjórnandi, verkefnastjóri sérstaks stuðnings og/ eða námsráðgjafi og umsjónarkennari. Viðtalið er fjórskipt:

 1. Skólastjórnandi kynnir stefnu skólans og sýn. Einnig kynnir hann skóladagatal og helstu dagsetningar, foreldraviðtöl og fyrirkomulag þeirra, símanúmer skólans, heimasíðu, netföng, skólareglur, mætingaskyldu, mötuneyti og greiðslufyrirkomulag, nestismál, samstarf heimilis og skóla, foreldrafélag og félagsmiðstöðina Laugó. 
 2. Foreldrar og nemandi veita upplýsingar um skóla sem nemandi hefur verið í, námsgengi og félagslega stöðu, sterkar og veikar hliðar, áhugamál og annað sem þeim finnst mikilvægt að skólinn hafi vitneskju um.
 3. Umsjónarkennari kynnir náms- og kennsluhætti, námsmat, möppukerfið, stundaskrá nemandans, hvar farið er í íþróttir og sund, innkaupalista, valgreinar, Mentor.is og leiðsögufélagana sem verða nemandanum innan handar fyrstu vikurnar í skólanum.
 4. Námsráðgjafi/og eða verkefnastjóri sérstaks stuðnings kynna stoðþjónustu skólans.

Eftir móttökuviðtalið er farið í kynningarferð um skólann (sjá ofar).

Eftirfylgni

 • Í lok móttökuviðtals er ákveðinn fundartími með foreldrum, nemanda og umsjónarkennara. Sá fundur er til að kanna námsgengi, líðan og félagslega aðlögun nemandans.
 • Umsjónarkennari sér um að koma nauðsynlegum upplýsingum um nemandann til allra þeirra sem koma að kennslu hans í skólanum.

Fyrsti skóladagurinn

 • Umsjónarkennari hittir nemanda í upphafi skóladags og með honum eru tveir nemendur úr umsjónarbekknum sem gerast leiðsögumenn nýja nemandans fyrstu tvær vikurnar. Þeirra hlutverk er m.a. að gæta þess að nýi nemandinn viti alltaf í hvaða kennslustofu hann er að fara, hvaða námsgögn hann þarf, leiðbeina honum um þær sérkröfur sem skólinn gerir (námsmöppur og fl.), kynna hann fyrir öðrum nemendum í frímínútum og gæta þess að hann vanhagi ekki um neitt.
 • Umsjónarkennari fer með nemandanum í fyrstu kennslustundina, kynnir hann fyrir bekknum og gefur bekknum þau fyrirmæli að hvert og eitt þeirra eigi að kynna sig fyrir nemandanum á eigin spýtur þann daginn.

Prenta | Netfang