Lokaverkefni - 10. bekkur

Að venju varði 10. bekkur maímánuði í vinnu við lokaverkefnið.  Í lokaverkefninu móta nemendur rannsóknaspurningu sem þeir leitast við að svara á málefnilegan og rökstuddan hátt en beita um leið innsæi sínu og hugarflugi.  Eins og undanfarin ár voru efnistök frjáls og rannsóknaspurningarnar fjölbreyttar að vonum. Meðal þeirra efna sem nemendur glímdu við í maímánuði voru: alzheimer, rapp, djúpnetið, gæði mismunandi skjákorta, sykur, sjö undur veraldar, svefn og er samt fátt eitt nefnt.

Niðurstöðum sínum skiluðu nemendur í formi margbreytilegra afurða á borð við vefsíðna, stuttmynda,  bóka, bæklinga, innsetninga, málverka, múmínálfahúsa, náttúrupassa, líkans af mislægum gatnamótum og fleira.   Verkefninu lauk síðan formlega miðvikudaginn 31. maí þegar nemendur kynntu verkefni sín, vinnuferli og niðurstöður fyrir aðstandendum og öðrum áhugasömum í fjórum málstofum.  Að kynningum loknum gátu áhugasamir kynnt sér nánar viðfangsefni 10. bekkinga á kynningarbásum sem nemendur settu upp í sal og á göngum skólans.  Eins og sjá má voru básarnir óvenju fjölbreyttir í ár og gátu gestir meðal annars gætt sér á mat frá þremur þjóðlöndum (Íslandi, Ítalíu, Víetnam), hlustað á tóndæmi um sex tónlistabyltingar, prófað matvæli sem veidd höfðu verið upp úr ruslagámum stórverslanna (umfjöllunarefnið var matarsóun), kynnt sér dæmi um mismunandi líkamsstaðla og innsetningu um margfaldan persónuleika.

Óhætt er að lokaverkefnið hafi heppnast mjög vel í ár og almenn ánægja meðal kennara og gesta með árangurinn.  Í lokaverkefninu gefst nemendum tækifæri á að beita sjálfstæðum vinnubrögðum við viðfangsefni að eigin vali og nýta sér þá færni sem þeir hafa þjálfað með sér á sinni 10 ára grunnskólagöngu.  Verkefnið ætti því að vera góð vísbending um stöðu nemenda við upphaf framhaldsnáms næstkomandi haust.

Hægt er að skoða myndir hér.

Prenta | Netfang