Krakkakosningar 2017

Nemendur í 8. bekk taka þátt í Krakkakosningum vegna Alþingiskosninganna 28. október nk. en það er samstarfsverkefni KrakkaRÚV og umboðsmanns barna við grunnskóla á Íslandi
Börn eiga rétt á því að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið, en það kemur meðal annars fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Hinn 29. október 2016 verða haldnar Alþingiskosningar á Íslandi.

KrakkaRÚV og umboðsmaður barna hafa því ákveðið að standa fyrir Alþingiskosningum barna og gefa börnum tækifæri á því að láta í ljós skoðanir sínar á málefnum stjórnmálaflokkanna. Stjórnmálaflokkarnir kynna stefnu sína í gegnum örmyndbönd þar sem þeir svara spurningum barna. Í framhaldi af því verður börnunum gefið tækifæri á að kjósa sinn stjórnmálaflokk á þar tilbúnum eyðublöðum sem skólunum hefur fengið afhent. Á atkvæðaseðlunum verða engar persónugreinanlegar upplýsingar og verður aðeins merkt við með einum krossi.
Nú er krakkakosningavefurinn tilbúinn en þar má nálgast kynningar frá stjórnmálaflokkunum. Hann er aðgengilegur á vefslóðinni  http://krakkaruv.is/krakkakosningar/ Það væri gaman ef þið hafið tök á að skoða vefinn heima með barninu ykkar. Kosningin hjá okkur mun fara fram á fimmtudaginn á skólatíma.
Verkefnið krakkakosningar er í samræmi við ákvæði í Barnasáttmálanum þar sem kemur meðal annars fram að börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið. Hér er börnum og ungmennum veitt það tækifæri að láta sínar skoðanir í ljós og velja þann stjórnmálaflokk sem þeim líst best á. Niðurstöðurnar verða birtar á kosningavöku RÚV á kosningadegi.

Bestu kveðjur,
Guðrún Ebba lífsleiknikennari og Sigurlaug samfélagsfræðikennari

Prenta | Netfang