Gleðileg jól

Að frumkvæði fulltrúa í Réttindaráði nemenda í Laugalækjarskóla var tekin sú ákvörðun að sleppa öllum pakkaleikjum á stofujólunum í ár en láta hefðbundið andvirði gjafa í pakkaleik renna til einhvers góðs málefnis.  Nemendur voru því hvattir til að koma með pening í skólann til að setja í sérstaka bauka sem voru í hverri stofu, þátttaka var valfrjáls. Til að efla samfélagslega meðvitund nemenda var þeim boðið að kjósa um hvaða málefni þau vildu styrkja með söfnunarfénu. Í netkönnun kusu nemendur á milli fjögurra valkosta og fyrir valinu varð BUGL,

Barna og unglingageðdeild Landspítalans. Það er ef til vill vel viðeigandi þar sem hún er næsti nágranni okkar í Laugalækjarskóla. Nemendur í Réttindaráði afhentu síðan fulltrúum BUGL söfnunarféið, 101 þúsund krónur, við athöfn á sal að viðstöddum nemendum og starfsmönnum skólans í lok stofujólanna miðvikudaginn 20. desember. Í lok athafnarinnar léku tveir nemendur í 10. bekk, Ísak Hugi Einarsson (píanó) og Högni Gunnar Högnason (selló), jólalög fyrir samnemendur sína og með þá hljóma í eyrunum voru nemendur kvaddir og sendir í jólafrí fram í janúar. 

Hægt er að skoða myndir hér.

Að lokum viljum við í Laugalækjarskóla sendum ykkur bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár. Þökkum samstarf og samvinnu á liðnu ári.

Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá þann 4. janúar.

Prenta | Netfang