Árshátíðarvikan

Árshátíðir nemenda voru í síðustu viku (11. - 17. mars) og er óhætt að segja að vikan hafi verið mörkuð af þeim fögnuði. Í vikunni var breytt út af ýmsum venjum. Í stað hins hefðbundna hafragrauts bauð nemendaráðið upp á amerískt morgunkorn með mjólk – vissulega máltíð í óhollari kantinum en úr varð hin besta stund.  Miðað við viðbrögð nemenda, biðraðir fram á gang titrandi af tilhlökkun,

má draga þá ánægjulegu ályktun að svoleiðis „trakteringar“ séu ekki á morgunverðarborðum nemenda nema helst á hátíðardögum og stórafmælum.  Enda falla árshátíðir undir stórhátíðir í Laugalækjarskóla.

Hver dagur vikunnar var helgaður einhverju þema og hefur mannlífið á göngum skólans verið líflegt á svarta deginum (mánudaginn), skrýtna hárdeginum (þriðjudaginn) og gallaefnisdeginum (denimdeginum á tungu villimanna).  

Hátíðarhöldin náðu svo hámarki á fimmtudaginn.  Um morguninn mættu nemendur í sinn bekk með allskonar góðgæti sem lagt var á sameiginlegt hlaðborð.  Hver bekkur var með sitt eigið þema (til dæmis sólgleraugu, hvít föt, spariföt, felulitir, fangaföt og svo framvegis) svo það var litríkur og fjölbreyttur hópur nemenda sem þrammaði saman út í Laugardalshöll upp úr 9 þar sem haldið var fyrsta skotboltamót Laugalækjarskóla. Því móti lauk með sigri 10U sem ekki ætti að koma á óvart því að bleyjuþema bekkjarins hefur eflaust slegið andstæðingana út af laginu í andlegum undirbúningi fyrir leikina.  Um kvöldið var síðan haldin glæsileg árshátíð í sal skólans, með fordrykk, hátíðarkvöldverð, skemmtiatriðum (meðal annars Flóna og árshátíðarmyndböndum kennara og nemenda) og dansleik fram eftir kvöldi.  Þema árshátíðarinnar var Casino með tilheyrandi skreytingum og klæðaburði.  Kvöldið áður höfðu 7. bekkingar haldið sína árshátíð með ekki minni glæsibrag né stemmingu.

Nemendur í 8.-10. bekk fengu síðan frí í fyrstu tveimur tímunum á föstudaginn en þema þess dags var einkum viðeigandi: náttföt.

Prenta | Netfang