Viðburðarík vika í Laugalækjarskóla

Viðburðarík vika í Laugalækjarskóla, þar sem keppt var í upplestrarkeppni, spurningakeppni grunnskólanna og Skólahreysti.

Stóra Upplestrarkeppnin 2018

Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar í okkar skólahverfi voru haldin í gær í Grensáskirkju.  Fulltrúar úr 7. bekk frá sjö skólum (Laugalækjar-, Háaleitis-, Langholts-, Voga-, Breiðagerðis-, Fossvogskóla og Waldorfsskólanum Sólstöfum) reyndu með sér í upplestri á bundnu og óbundnu máli.  Hver skóli sendi tvo fulltrúa til keppninnar og okkar keppendur voru þau Elías Pétur Steindórsson og Emma Dís Örvarsdóttir. 

Í Laugalækjarskóla er lagður mikill metnaður í keppnina, hver einasti nemandi í 7. bekk tekur þátt í upplestrarkeppni innan síns bekkjar enda markmiðið að þjálfa alla nemendur í upplestri og koma fram fyrir framan áhorfendur.  Úr hverjum bekk voru síðan valdir þrír fulltrúar sem kepptu svo í 12 manna úrslitakeppni innan skólans.  Úr þeim fríða hópi voru þau valdir þrír fulltrúar til að taka þátt í lokakeppninni í Grensáskirkju: Elías og Emma eins og fyrr sagði en einnig Kári Christian Bjarkarson til vara.

Fulltrúar okkar stóðu sig með prýði eins og við var að búast en Elías hreppti annað sætið í keppninni.  Það voru íslenskukennararnir í 7. bekk þær Anna Guðný og Svanhildur sem báru hitann og þungann af undirbúningi fyrir upplestrarkeppnina í Laugalækjarskóla.

upplestrarkeppni

 

Laugalækjarskóli vann spurningakeppni grunnskólanna

Þriðjudaginn 20. mars sigraði lið Laugalækjaskóla í spurningakeppni grunnskólanna Veistu svarið.  Eftir öruggan sigur í undanriðli sínum vann keppnislið okkar sér sæti í úrslitunum ásamt Árbæjarskóla, Álftamýrisskóla og Réttarholtsskóla. Úrslitin fóru fram í Árseli í Árbænum og var stuðningsmönnum boðið upp á rútuferð frá Laugalækjarskóla til að hvetja okkar menn til dáða.  Keppt var eftir útsláttarfyrirkomulagi og eftir að hafa lagt lið Álftamýrisskóla að velli á nokkuð öruggan hátt mættu okkar menn heimamönnum í Árbæjarskóla.  Árbæjarskóli er sigurvegari keppninnar síðustu tvö árin og vann einmitt okkar lið nokkuð örugglega í úrslitunum í fyrra og var því vægast sagt verðugur andstæðingur. Eftir að hafa verið undir lungann af viðureigninn lauk rimmunni með sigri Laugarlækjaskóla sem hlaut 27 stig á móti 22 stigum andstæðinganna.

Lið okkar var skipað einvalamönnum náð höfðu besta árangrinum í 100 spurninga forkeppni innan skólans.  Þetta voru 10. bekkingarnar: Ármann Leifsson, Hallgrímur Árni Hlynsson, Grímur Smári Hallgrímsson og Baldur Rökkvi Arnaldsson en hinir tveir síðastnefndu skiptu viðureignunum bróðurlega á milli sín.  Þjálfarinn er gamalt spurningaljón og nemandi í skólanum, Jóhann Gísli Ólafsson sem var sjálfur í sigurliði skólans fyrir nokkrum árum.  Hann var reyndar hættur öllum afskiptum af spurningakeppnum en féllst á að snúa aftur úr sjálfskipaðri útlegð til að þjálfa spurningalið Laugalækjarskóla.  Frábær árangur hjá okkar mönnum sem höfðu ekki nema um tvær vikur til að undirbúa sig undir keppnina.

spurningakeppni

Skólahreysti

Það er skammt stórra höggva á milli hjá nemendum Laugalækjarskóla þessar vikurnar.  Árshátíðarvikan er ekki fyrr að baki en við tekur sannkölluð „keppnavika“ – sigur í spurningakeppni grunnskólanna og annað sæti í Stóru upplestrarkeppninni  í 7. bekk á þriðjudaginn en síðdegis á miðvikudaginn var komið að keppni í undanriðli Skólahreystis.  Keppnin sú hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár og sýnt hefur verið frá henni í sjónvarpi auk þess sem úrslitakeppnin er sýnd í beinni útsendingu.  Í Skólahreysti, fyrir þá sem ekki vita, er keppt í þrautum sem reyna á þol, hraða og afl eins og til dæmis upphýfingum, armbeygjum, hreystigreip, dýfum og hraðaþraut.

Laugalækjarskóli keppti í riðli 4 ásamt Háaleitis-, Voga-, Langholts-, Réttarholts-, Háteigs- Haga-, Valhúsa- og Hólabrekkuskóla og óhætt að segja að við tefldum fram öflugri sveit. Hana skipuðu reynsluboltarnir Óliver Dór Örvarsson og Jónas Þórisson úr 10. bekk og 9. bekkingarnir Tinna Dögg Þórðardóttir og Salka Eik Eliassen.  Á varamannabekknum voru til taks þau Stella Michiko og Reynir Óskarsson bæði úr 9. bekk.  Nú þykir ekki drengilegt né til fyrirmyndar að hreykja sér að sigrum sínum svo við skulum láta nægja að segja að Laugalækjarskóli sigraði í riðlinum á öruggan hátt.  Óliver Dór vann bæði í upphýfingum (48 stykki) og í dýfum (með 53 slíkar á samviskunni) og þurfti nánast að biðja hann um að hætta.  Eins unnu Jónas og Tinna Dögg unnu hraðaþrautina örugglega – 25 sekúndum á undan þeim keppendum sem hrepptu annað sætið.  Salka Eik stóð sig einnig með miklum sóma.  Þá má ekki gleyma að nefna öfluga stuðningssveit sem fylgdu okkar liði í Garðabæinn en tvær fullar rútur fluttu grænklædda nemendur á vettvang.

Laugarlækjaskóli er því kominn í úrslit skólahreysti sem verða haldin í Laugardalshöll þann 2. maí næstkomandi og verða eflaust í beinni útsendingu á einhverri sjónvarpsstöðinni.  Óhætt er að gera sér góðar væntingar um árangur.  Áhugasamir geta kynnt sér nánar úrslitin í okkar riðli á vefslóðinni http://www.skolahreysti.is/SkolaHreysti_Stig.aspx?MainCatID=26&RidillID=126

skolahreysti

Prenta | Netfang