Augað 2018

Stuttmyndakeppnin Augað hefur verið árlegur viðburður síðustu ár.  Í henni leiða 9. bekkingar í Laugalækjar-, Voga- og Háaleitisskóla saman hesta sína í stuttmyndagerð.  Hver skóli úthlutaði nemendum 2—3 vikum í ársbyrjun til þess að semja handrit, taka upp og klippa stuttmynd.  Efnistök voru frjáls nema þemað var fyrirsagnir, það er nemendur þurftu að velja sér fyrirsögn úr fréttamiðlum og spinna upp úr henni sögu fyrir myndina sína.  Eins og við er að búast er mikill handagangur í öskjunni þegar heill árgangur safnast saman í upplýsingaveri og nemendur eiga auðvitað misauðvelt með að höndla svona opin verkefni.  Samt bregst ekki að á hverju ári koma fram mjög frambærilegar myndir en hitt  er líka eins árvisst að fram koma hugmyndir sem aldrei verða að fullkláruðu verki. 

Augað er um leið hluti af hæfniviðmiðum Laugalækjarskóla í upplýsingar- og tæknimennt samkvæmt námskrá, það er að nemandi geti „nýtt hugbúnað/forrit við myndvinnslu, hljóðvinnslu og gerð myndbanda“.

Uppskeruhátíð og úrslit Augans voru svo haldin föstudaginn 23. mars í aðalsal Laugarásbíós að viðstöddum nemendum úr 9. bekk í skólunum þremur.  Sýndar voru kítlur („trailers“) úr öllum fullkláruðum myndum og síðan þær þrjár myndir úr hverjum skóla sem þóttu standa upp úr og að lokum veitt verðlaun fyrir bestu myndina.  Í dómnefnd sátu fagmenn úr kvikmyndagerð og þau völdu myndina Pina Colada úr Vogaskóla í fyrsta sætið og er óhætt að segja að hún hafi verið vel að verðlaununum komin.  Í öðru sæti var hins vegar myndin Limbó úr Laugalækjarskóla með Birni Þór Gunnlaugssyni í burðarrulllu.  Aðrir aðstandendur myndarinnar eru tæknitröllið Kári Steinn Kjartansson, Þorgeir Atli Albertsson, Helena Diljá Sigurðardóttir og Sólrún Dögg Jósefssdóttir.  Sú mynd var ekki síður vel að verðlaunum komin og hlýtur að hafa verið verðugur keppinautur um fyrsta sætið.

Prenta | Netfang