Jólaleikar 2018

Jólaleikar Laugalækjarskóla fóru fram á þriðju- og miðvikudaginn eins og hefð er komin á í síðustu kennsluviku fyrir jólafrí.  Nemendum var skipt upp í 28 hópa þvert á bekki, árganga og fyrri störf sem fóru á milli 14 stöðva báða dagana (28 verkefni alls) og tókust á við margskonar verkefni á borð við skutlukast, dans, sudoku, púsluspil, emoji-ráðningar, ljóðagerð, myndlist, tímalínur, kahoot og svo mætti lengi telja.

Óhætt er að segja að flestir nemendur hafi tekist á við þrautirnar af gleði, hæfilegu keppnisskapi og þrautseigju.  Verðlaun voru veitt fyrir úrlausn verkefna, samvinnu og eldmóð (auk sérstakra verðlauna fyrir að giska á fjölda súkkulaðisrúsína í krukku) og voru sigurvegarar tilkynntir á sal í lok seinni keppnisdags.  Sigurliðið var skipað völdum mönnum í hverju rúmi (eins og reyndar öll önnur lið): Alex, Dagmari, Emilíönu úr 10. bekk; Katrín Klöru, Tryggva, Zanetu úr 9. bekk; Flosa, Guðrúnu úr 8. bekk og 7. bekkingunum Hrafnhildi, Jakobi og Kára Steini.  Auðvitað eiga allir þeir nemendur sem tókust á við þrautirnar, uppbrot á skóladegi og að vera í hóp með sér áður óþekktum skólafélögum af jákvæðni og opnum hug verðlaun skilið.

Hægt er að sjá myndir með því að smella hér.

Í kvöld eru síðan jólaböll nemenda og á morgun stofujól og þar með líkur dagskrá Laugalækjarskóla fyrir jólin.  Nemendur verða síðan kvaddir til starfa aftur föstudaginn 4. janúar.

Prenta | Netfang