Skip to content

Námsmöppur:

Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á að nemandinn taki ríka ábyrgð á eigin námi, ástundi faglega ígrundun og kynnist sjálfum sér sem námsmanni. Laugalækjarskóli vill vinna í þeim anda. Svonefndar námsmöppur (portfolios) voru innleiddar í Laugalækjarskóla fyrir nokkrum árum. Þær eru spennandi leið til að dýpka nám og er megintilgangur þeirra útskýrður hér að neðan. Námsmöppur skiptast í þrjá megin þætti:

  • Leiðarbók. Leiðarbækur eru kjarni námsmöppukerfisins. Nemandinn á eina leiðarbók í hverju fagi og er notkun þeirra fjölbreytt. Hún getur t.d. verið vettvangur til skráningar á sameiginlegum og einstaklingsbundnum markmiðum og sem síðan eru metin reglulega; hún getur verið vettvangur nemandans til að ígrunda framvindu námsins og eigið framlag og einnig staður fyrir glósur, reglur og ýmis skilaboð. Hún er stundum notuð í hverri kennslustund, stundum sjaldnar. Góður kafli í leiðarbók endurspeglar nálgun, framvindu og mat á hverju viðfangsefni hjá viðkomandi nemanda.
  • Safnmappa. Nemandinn heldur eina safnmöppu á hverjum vetri sem hann geymir í heimastofu eða skápnum sínum. Þangað safnar hann öllum verkefnum og flokkar þau eftir fögum.
  • Sýnismappa. Í lok hverrar annar velur nemandinn sín bestu verkefni í hverju fagi setur í svonefnda sýnismöppu. Í foreldraviðtölum sýnir nemandinn foreldrum sínum möppuna og er hún einn umræðugrundvöllur viðtalsins. Á fjögurra ára skólagöngu sinni í Laugalækjarskóla velja nemendur tólf sinnum verkefni í sýnismöppuna sína, sem þannig ber vitni um þeirra bestu verk en einnig um framfarir þeirra í námi á meðan dvöl þeirra stendur. Afurðin verður glæsilegur vitnisburður sem nemendur geta vonandi nýtt sér í framtíðinni.

Ef vel tekst til getur notkun námsmappa gert hvern nemanda ábyrgari fyrir sinni vinnu og gefið honum góða yfirsýn yfir eigið nám. Þær geta þannig aukið vitund hans um eigin stöðu og vinnulag, fyllt hann metnaði, kennt honum að meta eigin verk að verðleikum og vera stoltur yfir því sem vel er gert.

 

Þverfagleg verkefni - samþætting

Samvinna námsgreina í afmörkuðum verkefnum hefur um árabil verið eitt af flaggskipum náms í Laugalækjarskóla. Í þessu samhengi ræðum við jöfnum höndum um verkefnamiðað nám (project based learning, PBL), þverfaglegt nám og samþætt nám. Verkefnin ná til fleiri en einnar námsgreinar sem gefur tækifæri til að færa námið nær reynsluheimi barna en ella. Fjölmörg samþætt verkefni eru unnin á hverju skólaári. Flest þeirra eru unnin í upplýsingaveri skólans þar sem tölvunotkun og heimildarýni lærast samhliða verkefnunum. Uppruni verkefnanna á síðan einatt rætur sínar í einni eða fleiri faggreinum utan upplýsingamenntar. Þessi verkefnavinna er vaxandi að umfangi og kröfum eftir aldri nemenda nær hámarki með mjög umfangsmiklu lokaverkefni að vori í 10. bekk.

Kennsluáætlanir í hverju fagi gefa einnig vísbendingar um einstök verkefni.