Lykilhæfni

Samkvæmt nýrri aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2011/2013 er öllum skólum ætlað að styðja við lykilhæfni nemenda. Sjá umfjöllun í 18. kafla bls. 86.  Lykilhæfni er nú í fyrsta sinn tilgreind í íslenskum námskrám en hugtakið er þó ekki nýtt af nálinni. Á ensku er gjarnan rætt um 21st century skills.

Lykilhæfni í aðalnámskrá er skipt í eftirfarandi fimm þætti:

  1. Tjáning og miðlun
  2. Skapandi og gagnrýnin hugsun
  3. Sjálfstæði og samvinna
  4. Nýting miðla og upplýsinga
  5. Ábyrgð og mat á eigin námi

Sjá nánar á skemmtilegu veggspjaldi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.  

MRN Lykilhaefni

Nálgun Laugalækjarskóla að lykilhæfni

Lykilhæfni snertir allt almennt nám og allar námsgreinar. Í Laugalækjarskóla er unnið að öllum lykilhæfniþáttunum fimm með ýmsu móti, á öllum námsárum. Sem dæmi má nefna eftirfarandi: 

  • Þverfagleg og samþætt verkefni sem nemendur vinna á hverri önn, einkum í samvinnu við upplýsingaver skólans. Í þeim verkefnum reynir á alla þætti lykilhæfni því nemendur vinna í hópum við að afla sér fjölbreyttra upplýsinga, ræða þær og gagnrýna, þeir kynna verkefnin fyrir samnemendum og foreldrum og meta þau í lokin.
  • Áhersla skólans á námsmöppur er vel til þess fallin að styðja við lykilhæfni. Þar reynir mikið á markmiðssetningu, áætlanagerð og sjálfsmat nemenda. Með reglulegri ígrundun í leiðarbækur leitast nemendur við að kynnast sér sem námsmanni og fylgjast vel með eigin námsframvindu.
  • Í hverri námsgrein eru unnin fjölmörg verkefni sem styðja við lykilhæfni. Sem dæmi má nefna stuttmyndagerð, upplestur, rökfærsluritgerðir, ýmsar kynningar sem nemendur halda, sögugerð, umræður af ýmsum toga, aðlögun náms að námsgetu og áhugasviði, gagnvirkur lestur, opin verkefni sem reyna á ályktunarhæfni, skipuleg leiðsögn við hönnun og nýsköpun, ART-kennsla og fjölbreyttar valgreinar. Sjá nánar í einstökum kennsluáætlunum.

Mat á lykilhæfni

Aðalnámskrá kveður á um mat á lykilhæfni á einstaklingsgrunni. Fyrstu skref Laugalækjarskóla verða byggð á sjálfsmati nemenda. Þeir setja sér markmið fyrir veturinn, finna leiðir að þeim markmiðum og meta eigin framfarir sjálfir. Markmið nemenda og framvindan verða kynnt í foreldraviðtölum að hausti og að vori.  

 

Prenta | Netfang