Námsmat - breyttar áherslur

Eins og flestum er kunnugt er boðuðu menntayfirvöld miklar breytingar á námsmati í grunnskólum með nýrri Aðalnámskrá grunnskóla 2011/2013. Hér að neðan má lesa um eftirfarandi:


Megininntak breytinganna

Ný nálgun felst einkum í þrennu:

1)  

Markmið náms skal jafnan vera hæfni nemenda. Lýsingar á markmiðum náms skulu nú alfarið beinast að því sem nemandinn á að geta gert við lok námstíma/námslotu. Sjá dæmi Aðalnámskrá grunnskóla 2011/2013 úr íslensku og stærðfræði: 

Nemandi getur...

  • beitt skipulegum og góðum vinnubrögðum við ritun, skipað efnisatriðum í samhengi og mótað málsgreinar og efnisgreinar á skýran hátt (bls. 119).
  • nýtt einslögun, hornareglur og hnitakerfi til að teikna, greina og skapa rúmfræðilega hluti (bls.222).

Markmið sem lýsa hæfni nemanda eru ekki alger nýjung því í fyrri námskrám mátti stundum gjarnan sjá markmið þar sem hæfni nemandans við lok námstíma var í brennidepli, sjá dæmi úr Aðalnámskrá grunnskóla frá 1999, úr kafla í íslensku:  

  • Nemandi á að hafa öðlast öryggi í að tjá hugmyndir sínar og skoðanir í rituðu máli (bls. 73).

Í eldri námskrám var þó algengt viðfangsefnið væri í brennidepli, og ekki er gerð tilraun til að lýsa hæfni nemandans. Sjá dæmi úr sömu námskrá (1999): 

  • Nemandi skoði mismunandi stíl og stílbrögð bókmenntaverka (bls.  74). 

Markmið af þessu tagi er ekki að finna í nýjustu námskránni

2) 

 Einkunnir skal ekki reikna heldur skal styðjast við fyrirfram skilgreindar hæfnilýsingar. Neðangreindan meginkvarða skal nota til að finna þá einkunn sem best passar hæfni nemandans.

 A  Framúrskarandi hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Nemandinn hefur náð þeirri hæfni sem lýst er í hæfniviðmiðum og að einhverju leyti með framúrskarandi árangri. 
 B Góð hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Nemandinn hefur í meginatriðum náð þeirri hæfni sem lýst er í hæfniviðmiðum. 
 C Sæmileg hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Nemandinn hefur hefur ekki náð þeirri hæfni sem lýst er nema að hluta til.
 D Hæfni og frammistöðu í námi ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs. 

Kvarðinn er síðan útfærður fyrir hverja námsgrein og aldur nemenda. Almennt gildir að ef nemandi uppfyllir í öllum meginatriðum þá hæfni sem stefnt er að, skal hann að lágmarki fá einkunnina B. Leyfilegt er að gefa einkunnirnar B+ og C+ ef nemandinn er á mörkum þess að ná einkunnunum A og B. 

3)   Áhersla skal lögð á reglulega endurgjöf og leiðsögn til nemandans. Hér gegna hæfnilýsingarnar lykilhlutverki því endurgjöf og veita leiðsögn skila bestum árangri ef nemandinn og kennarinn hafa sameiginlegan skilning á lokatakmarkinu.

Að auki er hvatt til þess að námsmat sé fjölbreytt, hvetjandi og að nemandinn iðki sjálfsmat. Í sjálfsmati felst m.a. að nemandinn læri að ígrunda nám sitt - bæði viðfangsefnin sem slík, eigin árangur og eigin námsleiðir - og fellur það vel að áherslum Laugalækjarskóla á notkun leiðarbóka og sýnismappa.  


Helstu upplýsingar frá yfirvöldum

Ljóst hefur verið að þær breytingar kalla á umtalsvert breytta nálgun og vinnlag við kennslu og námsmat. Það sem menntayfirvöld hafa látið frá sér um málið má fyrst og fremst finna á eftirfarandi stöðum:

Eins og sjá má af þessari upptalningu er fyrst og fremst um að ræða finna efni sem lýtur að lokaeinkunn í 10. bekk. Því miður hafa menntayfirvöld lítið sem ekkert fjallað um námsmat að öðru leyti, né t.d. komið með leiðbeiningar eða dæmi um breytt vinnulag skólafólks í daglegri kennslu. Það hefur verið þrautin þyngri fyrir skólana að útfæra sína nálgun.  

 
Nálgun Laugalækjarskóla

Undanfarin misseri höfum við í Laugalækjarskóla verið að aðlaga okkur hinni nýju nálgun. Kennsluáætlanir hafa verið hæfnimiðaðar síðustu skólaár og hægt og hægt höfum við verið að útfæra námsmat með endurgjöf/leiðsögn í brennidepli yfir veturinn, og svo lokaeinkunnir í bókstöfum. Laugalækjarskóli hefur átt í góðu samstarfi við aðra skóla um útfærslu, einkum Réttarholtsskóla.

Í vetur voru sendar út upplýsingar til að foreldrar gætu glöggvað sig á breyttu umhverfi: 

 Meira efni mun koma hér á vefinn eftir því sem nálgun okkar breytist og þróast, ásamt því sem menntayfirvöld taka vonandi aukna forystu í málinu. 

 

Prenta | Netfang