Leiðandi uppeldi

Meginhlutverk skóla er að mennta nemendur og hið formlega nám skipar þar stærstan sess. Langur skóladagur og fjölbreytt samskipti kalla þó á að menntastofnanir líti á almenna samveru nemenda og starfsmanna sem menntun í sjálfu sér. Því er mikilvægt að skólar móti sér stefnu um samskipti nemenda og starfsmanna. Sú stefna sem starfsmenn Laugalækjarskóla fylgja í daglegum samskiptum við nemendur nefnist leiðandi uppeldi1

Með leiðandi uppeldi viljum við byggja upp ánægða einstaklinga með skýra og sterka sjálfsmynd. Við viljum skapa þeim jákvæða reynslu af skólagöngu sem er líkleg til að ýta undir frekara nám og farsælt líf í öllu tilliti. Leiðandi uppeldi er ein af lykilstoðum skólans við að byggja upp jákvæðan skólabrag.

Helstu einkenni leiðandi uppeldis eru festa og umhyggja í senn. Við leggjum áherslu á að sýna nemendum persónulegan áhuga, kynnast þeim vel og tengjast þeim þannig á jákvæðan hátt. Við leggjum okkur eftir því að hrósa nemendum fyrir það sem þau gera vel og leiðbeina þeim á uppbyggjandi hátt um það sem betur má fara. Með þessu viljum við fyrst og fremst mæta þörfum þeirra eins vel og kostur er, og byggja upp traust til að geta betur leyst úr hvers kyns vandamálum sem kunna að koma upp á meðan skólagöngu þeirra stendur.

Við leggjum líka áherslu á festu þegar eitthvað ber útaf, en þó ávallt með skýrri áherslu á samstarf, leiðsögn og lausnamiðaðan þankagang. Það gerum við eins lengi og samstarfsvilji er fyrir hendi hjá viðkomandi nemanda, enginn brýtur á rétti annars og helstu skólareglur eru virtar. Með leiðandi uppeldi leggjum við þannig litla áherslu á umbun og refsingu, svo lengi sem aðrar uppbyggjandi leiðir eru færar.

Áberandi birtingarmyndir leiðandi uppeldis í skólanum:

  • Reglulegar ábendingar til nemenda um að farsæl skólaganga byggir á miklu samstarfi.
  • Fáar en skýrar skólareglur, með uppbyggilegum tóni og eins vægum inngripum og atvik leyfa.
  • Plakötin með Lauga. Þau hanga víða um skólann og eru með ábendingar um jákvæða hegðun á hvetjandi formi.
  • Í skólanum er ekkert punktakerfi fyrir ástundun. Aðeins er gefin skólasóknareinkunn sem byggist á seinkomum og óheimilum fjarvistum. Hins vegar skráum við ástundun nemenda með reglulegum og fjölbreyttum hætti á Mentor.is, sem er bæði hugsað sem leiðsögn fyrir nemendur og upplýsingagjöf til foreldra.
  • Mjög virkar forvarnir gegn einelti
  • Áherslur í lífsleiknikennslu á jákvæð samskipti, reiðistjórnun og uppbyggilegar umræður. 

Í stefnukorti skólans er leiðandi uppeldi sérstaklega tilgreint sem eitt af meginmarkmiðum skólastarfsins. Í tengslum við það er sérstök mæling notuð til að fá reglulegar vísbendingar um gang mála, sem er kvarðinn samband nemenda og kennara í Skólapúlsinum (sjá mat á skólastarfinu).

1)  Þetta heiti er upphaflega komið frá Díönu Baumrind, þróunarsálarfræðingi og fræðimanni (e. authoritative parenting). 

Prenta | Netfang