Stefna Laugalækjarskóla er í mótun í kjölfar útgáfu Menntastefnu Reykjavíkurborgar. Til bráðabirgða setjum við fram neðangreinda yfirlýsingu.
Laugalækjarskóli vinnur einlæglega að því með öllum sínum nemendum að þeir efli sig..
- sem sjálfstæðir einstaklingar og virkir þátttakendur í uppbyggjandi samfélagi við aðra nemendur og starfsmenn.
- sem sjálfstæðir námsmenn sem leita eftir tækifærum til að styrkja sig í námi - hver um sig og í samstarfi við aðra - og ná þeim árangri sem þeir ætla sér.
Laugalækjarskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur. Sem slíkur starfar hann eftir gildandi aðalnámskrá (2011/2013) og nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar. Menntastefnan var samin á árunum 2017 - 2019 og mun stefna Laugalækjarskóla verða endurskoðuð í ljósi nýrrar menntastefnu.
Rauður þráður í stefnu skólans er og verður að efla sjálfsmynd hvers nemanda, bæði í félagslegu og námslegu tilliti. Við lítum á trú nemanda á eigin getu sem grundvöll árangurs í starfi og leik.
Við viljum m.a.
- efla almennan námsárangur með læsi sem grundvallarþátt.
- kynnast nemendum og tryggja að sérhver nemandi eigi sér traustan bandamann í hópi starfsfólks.
- stuðla að því að nemendur upplifi sig sem gerendur í eigin námi, m.a. með markvissri ígrundun um eigið nám.
- að nemandinn þekki leiðir til vaxtar og þrói með sér kjark til að reyna á sig, taka áhættu, læra af mistökum og vinna sigra.
- að nemendur þekki eigin réttindi, virði réttindi annarra og skynji mikilvægi þess að taka þátt í að móta gott samfélag,
Til að gera Laugalækjarskóla að samhentu og uppbyggjandi samfélagi munum við leita hinna fjölbreyttustu leiða.
Laugalækjarskóli fylgir uppeldisstefnunni um jákvæðan aga og vinnur í þeim anda. Þá hefur skólinn hlotið útnefningu sem réttindaskóli UNICEF.
Einkunnarorð Laugalækjarskóla eru Virðing, eldmóður og gleði.