Mannréttindi og mannvirðing

Gildi Laugalækjarskóla eru virðing, eldmóður og gleði og viljum við að skólabragurinn í Laugalækjarskóla einkennist af þessum gildum. Gleðin tengist þeim anda sem við viljum að ríki við dagleg störf og eldmóðurinn þeim metnaði sem skal einkenna bæði nám og kennslu. Virðingunni viljum við gera sérstaka grein fyrir hér að neðan. 

IMG 1140

Allir nemendur eru jafn velkomnir í Laugalækjarskóla. Enginn á meiri rétt en annar, hvaðan sem hann kemur eða hvernig sem hún hugsar. Margbreytileikinn er einstakt tækifæri til að læra. 

Í Laugalækjarskóla fylgjum við áætlun skólans um mannréttindi og mannvirðingu. Við hugsum það sem samheiti yfir fjölmargar smærri stefnur og áætlanir sem tengjast samveru allra í skólasamfélaginu. Stefnan snýr bæði að samskiptum, forvörnum og annarri þeirri fræðslu og þjálfun sem gerir góða stund betri – bæði í nútíð og framtíð.

Grunnurinn að stefnunni eru Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna - andi hans og áherslur, mannréttindastefna Reykjavíkurborgar og stefna Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar. Við leggjum okkur fram um að taka tillit, virða sérkenni hvers annars og rétt allra til að hafa sínar skoðanir.

Stefna um mannréttindi og mannvirðingu samanstendur af eftirfarandi þáttum:

Fræðsla

Í skólanum býðst reglulega fræðsla og umfjöllun um hina ýmsu þætti mannlegrar tilveru. Hún er ávallt hugsuð til að auka skilning á þeim fjölbreytileika sem einkennir samfélag mannanna. Á tveggja ára fresti bjóðum við síðan upp á umfjöllun um Barnasáttmálann í samstarfi við UNICEF á Íslandi og fáum nemendur til að meta hvernig framkvæmd hans gengur í Laugalækjarskóla.

Mat

Mat á framgangi áætlunar um mannréttindi og mannvirðingu fer fram með ýmsu móti. Mælitækið Skólapúlsinn gefur nemendum kost á því að segja skoðanir sínar á ýmsum þáttum skólastarfsins. Niðurstöðurnar eru birtar með mælikvörðum sem gefa góða vísbendingu um hvernig okkur miðar. Má þar nefna eins og kvarða sem nefnast vellíðan, einelti, samband nemenda og kennara og samsömun við jafningjahópinn. Suma þessara kvarða vöktum við mjög náið nú þegar í tengslum við skorkort skólans.

Prenta | Netfang