Stefna skólans

Kjarnann í stefnu Laugalækjarskóla má finna í eftirfarandi leiðarljósi fyrir starfið í skólanum:

Laugalækjarskóli vill vera í fararbroddi hvað varðar metnað í námi, kennslu og öllu starfi.  Við viljum útskrifa ábyrga og sjálfstæða nemendur, tilbúna til að takast á við frekari áskoranir. Lögð er áhersla á jákvæðni, samstarf og uppbyggileg samskipti milli allra í skólasamfélaginu. Jafnræði og mannréttindi eru forgangsverkefni. Umhyggja og vellíðan eru samstarfsverkefni allra í skólasamfélaginu. Sterk sjálfsmynd nemenda er kappsmál og lykill í forvarnastarfi. Við hvetjum nemendur til sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar. 

Gildi skólans eru Virðing - Eldmóður - Gleði

Nám er kjarni skólastarfs og er gott námsgengi því eitt af okkar forgangsmálum. Vilji er til þess hjá starfsfólki Laugalækjarskóla að vera í fremstu röð hvað varðar nám og kennslu og kapp lagt á að allt starf endurspegli þann metnað.  Snar þáttur í því er að efla metnað með nemendum og hvetja þá til að setja sér markmið til skemmri og lengri tíma.

Þróun starfshátta er órjúfanlegur hluti af starfi skólans. Vinnulag er sífellt til ígrundunar, fagleg forysta kennara er í lykilhlutverki og samráð og samstarf eru lykilþættir í starfinu.

Í Laugalækjarskóla er lögð áhersla á að uppbyggilegt samstarf ríki milli allra aðila um skólastarfið í heild og samskipti einkennist af gagnkvæmri virðingu. Með vaxandi þroska er eðlilegt að ungmenni hafi sífellt meira að segja um sín mál og á unglingsaldri fá nemendur því meira frelsi en í yngri bekkjum. Samhliða er lögð áhersla á leiðsögn um þá ábyrgð sem auknu frelsi fylgir. Engu að síður er til staðar nokkuð skýr umgjörð sem ekki er vikið frá. 

Allar nánari upplýsingar um úfærslu stefnunnar er að finna hér á vef skólans. 

Prenta | Netfang